Einu sinni var, í landi með engum góðum forritum til vinnslu myndskeiða...

Á bakvið öll góð forrit er einhver saga. Jæja... það er ekki víst að þetta sé neitt sérstök saga, en hérna er hún. Ég heiti Jonathan Thomas. Ég bý nálægt Dallas, sem er í norðurhluta Texas í Bandaríkjunum. Ég hef unnið við þróun hugbúnaðar / vefhönnun síðustu 20+ árin.

Snemma ársins 2008, setti ég fyrst upp Ubuntu á tölvu hjá mér. Ég varð mjög hrifinn, en rétt eins og margir aðrir, sá ég að þarna vantaði einhvern góðan hugbúnað til að sýsla með myndskeið. Í margar vikur skoðaði ég málið niður í kjölinn, náði í ýmsan hugbúnað, stillti, vistþýddi og setti upp öll þau myndskeiðavinnsluforrit fyrir Linux sem ég gat fundið. Í ljós kom að þau voru æði mörg, en ekkert þeirra uppfyllti þær einföldu kröfur sem ég setti:

Forsendur:

  • Auðvelt í notkun
  • Öflugt
  • Stöðugt

Þannig að, eftir mikla umhugsun, ákvað ég að fara af stað með þróun á mínum eigin hugbúnaði til að vinna með myndskeið, þetta var í ágúst 2008. Hljómar einfalt? Hinsvegar, eftir því sem ég lærði meira, reyndust vera ýmsar áskoranir framundan.

Áskoranir:

  • Það var á mörkunum að ég kynni á Linux
  • Ég vissi lítið sem ekkert um forritun á Linux (öll min reynsla byggðist á Microsoft C# og .NET kerfinu)
  • Ég hafði ekki hugmynd um hvernig hægt væri að blanda saman hljóði og mynd með kóða

Ég ákvað að þetta hlyti að vera áhugaverð áskorun sem væri þess virði að reyna sig við. Fljótlega varð Python-forritunarmálið fyrir valinu; vegna hraða þess, fallegrar áferðar, og ótrúlegs fjölda bindinga við allskyns aðgerðasöfn.

Einn vinur minn stakk upp á að ég ætti að halda utan um framvindu verkefnisins á bloggi. Þótt ég hefði enga reynslu af bloggskrifum, reyndist þetta vera ein albesta ákvörðun sem ég hef tekið. Það gerði mér kleift að skrá hvernig allar helstu ákvarðanir voru teknar, að ná sambandi við áhugavert fólk, og það sem mikilvægast er; að fá til baka umsagnir frá þeim sem eru að gera tilraunir með vinnslu á myndskeiðum.


[Skjámynd af fyrsta blogginu - Des 2008

Síðasti búturinn í pússluspilinu reyndist vera að ákveða eitthvað gott margmiðlunarkerfi (multimedia framework - þ.e.a.s. aðgerðasafnið sem heldur utan um alla blöndun á hljóði og mynd). MLT. Segir allt sem þarf.

Um leið og hlutirnir fóru að falla saman, varð ég mjög spenntur. Var þetta raunverulega að ganga upp? Var í alvörunni að verða til hugbúnaður til að vinna með myndskeið? Kannski. En nú þyrfti að finna nafn á fyrirbærið. Nafn með meiningu. Geðveikt flott nafn... Spóla áfram um einn mánuð... Ekkert nafn vildi festast. Einn góðan veðurdag var ég að spila körfubolta með félögunum, nánar tiltekið (PIG svo rétt sé frá sagt). Ég klúðraði galopnu færi, eða "open shot" eins og það heitir í mínum heimahögum. Vinir mínir gerðu auðvitað gys að mér, en það var eitthvað sem small inn. "OpenShot"... það er eiginlega fullkomið; "shot" er líka notað í kvikmyndabransanum. Auðvitað hljómar þetta hálfvæmið, en þetta er raunverulega sagan á bakvið nafnið "OpenShot".

[Fyrsta opinbera birting á OpenShot táknmyndinni - Sept 2008

Opinberlega stendur nafnið því fyrir allt annað en glatað færi í körfubolta: Open stendur fyrir opinn grunnkóða, og Shot stendur fyrir staka töku í kvikmynd. Saman gerir þetta "OpenShot".

Um leið og OpenShot hefur batnað og vaxið, þá má segja það sama um vinsældirnar, en einnig um þau tækifæri sem mér og öðrum aðstandendum OpenShot hefur boðist. Mér hefur auðnast á sjá OpenShot vaxa úr engu (lesist bókstaflega), upp í það að vera þann myndskeiðahugbúnað Ubuntu með hæstu einkunnina, og fara alla leiðina á aðalsvið stærstu Linux-ráðstefnunnar í Bandaríkjunum!

[Jonathan Thomas að kynna OpenShot á SCALE 9x - Feb 2011]

Hvernig mun þessi saga enda? Verður OpenShot einhverntíma allrabesta myndvinnsluforrit allra tíma? Hver veit... afganginn af sögunni er ennþá verið að skrifa. Ef þig langar til að fylgjast með frá byrjun, þá eru hérna 4 fyrstu bloggfærslurnar mínar... síðan í maí árið 2008: